Saga skólans

Þann 1. ágúst 1995 hóf Félagsstofnun Stúdenta (FS) rekstur á leikskólanum Sólgarði á Eggertsgötu 8. Leikskólinn var í tveimur íbúðum á Vetrargarði og vistaði 28 börn á aldrinum 6 mánaða til tveggja ára.

Haustið 2001 var farið í miklar breytingar á leikskólanum. Var hann stækkaður og aðstaða bætt svo leikskólinn uppfyllti nútímakröfur. Skólinn var opnaður aftur eftir breytingar 10. janúar 2002. Eftir breytingarnar rúmar leikskólinn 51 barn í heilsdagsvistun.

Vorið 2006 hittust leikskólastjórar þeirra þriggja leikskóla sem Félagsstofnunstúdenta rekur og ræddu um faglega framtíð skólanna. Niðurstaðan varð sú að skólarnir myndu allir vinna eftir High/Scope uppeldisstefnunni. (highscope.org).

High/Scope á uppruna sinn í Bandaríkjunum árið 1962 en þar var farið að vinna samkvæmt forvarnaráætlun til að hjálpa börnum úr fátækrahverfum sem ekki hafði vegnað vel í skólakerfinu. Þegar ljóst var að þau börn sem tóku þátt í áætluninni sýndu aukinn námsárangur var búin til námsskrá/skólastefna fyrir yngri börn og gefið nafnið High/Scope sem stendur fyrir markmið sem við setjum okkur ( High/hátt) hvað varðar þá óendanlegu möguleika sem nám býður okkur upp á (Scope/ ráðrúm).

Það eru 5 þættir sem ramma High/Scope stefnuna inn:

Virkt nám

Jákvæð samvinna fullorðina og barna

Barnvænt námsumhverfi

Dagskipulag

Vinnuhópar sem framkvæma mat og gera einstaklingsáætlanir

High/Scope verkefninu var ýtt úr vör haustið 2006. Frá upphafi var ljóst að setja þyrfti skýr og raunsæ markmið. Við höfðum að leiðarljósi upphaflegar hugmyndir okkar um framúrskarandi skóla með ánægðumbörnum, starfsfólki og öðrum þeim sem að skólanum kæmu.

High/Scope stefnan leggur ríka áherslu á að það sé frumkvæði barnsins og jákvæð samskipti fullorðins og barns sem liggur að baki virku námi. Virkt námsumhverfi býður upp á að börnin hafi val og geti tekið ákvarðanir. Með því að börnin séu virkir þátttakendur í eigin námi og fái stuðning frá öðrum þróa börnin með sér frumkvæði og félagslegafærni sem hefur jákvæð áhrif á þau í frekara námi og ákvarðanatöku í lífinu. Barnið hefur tækifæri til að kanna, spyrja, handfjatla, gera mistök, leysa þrautir og finna viðeigandi lausnir í samræmi við aldur og þroska. Verkefnavinna er ýmist skipulögð af kennara eða barninu sjálfu. Virkt nám byggir á samskiptum og þar styður kennarinn við barnið, leiðbeinir og ýtir undir sjálfstæði þess.