Þessi hlekkur er í vinnslu


Uppruni HighScope stefnunnar

Árið 1962 ýtti David Weikart í Ypsilanti, Michigan, af stað Perry Preschool Project sem síðar varð HighScope Perry Preschool Project. Weikart mótaði þessa stefnu til að sporna við háu falli fátækra nemenda úr gagnfræðiskólanum í Ypsilanti. Nemendur úr fátækrahverfunum höfðu skorað lágt á greindar-og akademískum prófum ár eftir ár og Weikart leitaði ástæðunnar og hvernig hægt væri að koma í veg fyrir þetta síendurtekna brottfall fátækra nema. Hann komst að því að þetta lága skor nemendanna væri frekar vegna þess að þeir hefðu takmörkuð tækifæri til undirbúnings fyrir skólagöngu frekar en þau væru fædd með lága greindarvísitölu. Weikart og nokkrir skólastjórnendur tóku sig saman og fóru að íhuga snemmtæka íhlutun fyrir 3-4 ára börn og urðu sífellt hrifnari af þeirri hugmynd að undirbúa börn á leikskólaaldri betur fyrir komandi skólagöngu. Weikart fékk því leyfi til að koma af stað leikskóla í Michigan þar sem einblínt yrði á vitsmunaþroskann í staðinn fyrir félags-og tilfinningaþroska eins og var gert í öðrum skólum. Hann vildi gera námskrá sem tók mið af vitsmunaþroskanum og leggja þannig grunninn að því að styrkja nám barnanna seinna á lífsleiðinni. Þar sem þessi leið hafði ekki verið farin áður í leikskólum vildi Weikart vita hvað aðrir sérfræðingar hefðu um þetta að segja. Honum var ráðlagt að hverfa frá þessari hugmynd þar sem sérfræðingar töldu að börn á aldrinum 3-4 ára skorti andlegan og tilfinningalegan þroska til að stunda nám í þess háttar umhverfi. Weikart var ekki tilbúinn að gefa þessa hugmynd sína upp á bátinn og notaði því vandað rannsóknartæki til að bera framfarir barnanna í leikskólanum saman við börn sem ekki voru á leikskólanum.

Þeir fóru því að vinna að námskrá og voru sammála um að eftirfarandi þættir yrðu að vera til staðar:

  1. Skýr og greinargóð stefna um kennslu og nám var nauðsynleg
  2. Tilgáturnar og framkvæmdin yrðu að styrkja getu hvers barns til að þroska með sér hæfileika sína og kunnáttu og fá tækifæri til að gera það í gegnum virkt nám sem fram fer öllum stundum.
  3. Kennarar, rannsakendur og stjórnendur skólans verða að vinna saman að öllum þáttum námskránnar til að tryggja að tilgáturnar og framkvæmdin fái jafnmikla íhugun.


Með þessa þætti í huga sneru Weikart og félagar sér að skrifum Piaget. Kenning Piaget um þroska barna studdi heimspekilegt viðhorf Weikarts og félaga um virkt nám. Eftir mikla rannsóknarvinnu og miklar umræður var hafist handa við að setja upp dagskipulag fyrir 3-4ra ára börn. Hópurinn sem að þessu stóð skiptist í tvennt. Annar hópurinn kynnti sér vel og vandlega kenningar Piaget og hinn hópurinn prófaði námsleiðirnar og mótaði þær eftir þörfum. Hópurinn vann með börnunum og hittist svo á daglegum starfsmannafundum þar sem grunnurinn var lagður að námskrá High/Scope.

Hægt er að lesa um langtímarannsóknina og niðurstöður hennar hér en í stuttu máli sagt voru 123 börn úr fátækrahverfi valin til að taka þátt í rannsókninni. 58 börn fóru í hágæðaskóla en 65 voru ekki í skóla og var fylgst með þeim frá 3-11 ára, svo aftur 14, 15, 19 og 27 ára og að lokum þegar þau voru 40 ára. Niðurstöðurnar voru skýrar, þau börn sem voru í hágæðaskóla stóðu sig betur en þau sem ekki voru þar. Þau höfðu meira frumkvæði, stóðu betur félagslega og alhliða þroski þeirra var betri en þeirra sem ekki voru í skóla.

Árið 1970 fór Weikart frá Ypsilanti Public Schools til að stofna The HighScope Educational Research Foundation. Hann einblíndi á leikskólann og þær aðferðir sem hann og félagar hans höfðu þróað með sér og komið á laggirnar í Perry Preschool Project. Starfsfólk HighScope hefur haldið áfram að þróa og breiða út aðferð hans um virkt nám.

Virkt nám

Hornsteinn HighScope er trúin á að virkt nám sé undirstaðan fyrir manneskjuna til að ná fullum þroska og getu og að virkt nám sé árangursríkast í umhverfi sem sér börnunum fyrir verkefnum sem hæfa aldri og þroska þeirra. Nám er félagsleg reynsla þar sem börn eiga í miklum samskiptum í leik og starfi. Börn læra hlutina á ólíkan hátt, hafa ólík áhugamál og hlutirnir liggja misvel fyrir þeim en þau eru líkleg til að ná bestum þroska þegar þau eiga í samskiptum við aðra, bæði jafningja og fullorðna.

Persónulegt frumkvæði barnanna er það sem liggur að baki virku námi þeirra. Ung börn fylgja löngun sinni til að kanna hluti, þau spyrja og leita svara við spurningum um fólk, efni, hugmyndir og hluti sem þau hafa áhuga á og vekja forvitni þeirra, þau leysa vandamál sem koma í veg fyrir að þau nái markmiðum sínum og leita nýrra leiða til að ná þeim.

Í HighScope er einblínt á styrkleika barnanna og getu og þau hvött til að koma framkvæma hugmyndir sínar. Börnin öðlast traust og frumkvæði, forvitni þeirra eykst, þau verða úrræðagóð, sjálfstæð og ábyrgðarfull ef þau fá tækifæri til að sýna hvað í þeim býr.

Virkir nemendur eru einbeittir og áhugasamir um eigin gjörðir og hugsanir. Þeir finna sér margt til dundurs og taka ákvarðanir byggðar á eigin áhuga og eigin hugmyndum/kenningum og þau fá tíma til að fylgja eigin áætlunum eftir. Þau eru í samskiptum við fólk sem þau deila hugmyndum sínum, athugunum og áætlunum með og fái þau viðeigandi stuðning og hvatningu frá kennara verða þau sífellt virkari í eigin námi.

Virkt nám ungra barna

Börn eru félagsverur allt frá fæðingu. Í gegnum samskipti við fólk og meðhöndlun efniviðs læra þau að hreyfa sig að vild, læra hvernig þau geta haldið á og kannað hluti og hvernig þau geta átt samskipti við foreldra, fjölskyldumeðlimi, jafningja og aðra sem annast þau. Sem virkir þátttakendur í eigin námi horfa börn á, teygja sig eftir og grípa í fólk og hluti sem fangar athygli þeirra. Þau velja fólk og hluti sem þau hafa sérlegan áhuga á að leika við/með og bregðast við ólíkum áreitum úr umhverfinu. Með hreyfingum, látbragði, svipbrigðum, látum og að lokum orðum tjá þau tilfinningar sínar og hugmyndir. Þegar þau kanna umhverfi sitt reiða þau sig á foreldrana/kennarana sem annast þau til að styðja þau og styrkja athafnir þeirra, val og samskiptamáta/leiðir.

Þegar börnin eru í umsjá þeirra sem skilja þroska þeirra, taka tillit til þeirra og virða þau öðlast þau sjálfstraust og læra að treysta öðrum og það gerir þeim kleift að verða forvitnir og sjálfstæðir nemendur. Þau eiga frumkvæðið að þeirra eigin könnunarleiðangri af teppinu og inn í næsta herbergi og fara áfram á forvitninni, þau vilja sjá hvaða áhugaverða fólk og hluti er þar að finna. En jafnvel hugrökkustu könnuðirnir snúa aftur í ,,heimahöfnina" þar sem þau vita að þau eiga stuðning, hvatningu og umhyggju vísa.

Til að tryggja námsumhverfi sem byggir á trausti, sjálfstæði og frumkvæði og þar sem virkt nám getur blómstrað þurfa þessir fimm þættir að vera til staðar:

  • Efniviður
  • Meðhöndlun á efnivið
  • Val
  • Orð og hugsanir barna
  • Stuðningur kennara

Virkt námsumhverfi fyrir ung börn.

Umhverfi fyrir ung börn verður að vera hlýlegt og veita þeim öryggi auk þess að veita mörg tækifæri fyrir virkt nám. Vel skipulagt námsumhverfi ýtir undir líkamsþroska, tjáningu, vitsmunaþroska og félagsleg samskipti. Virkt námsumhverfi fyrir ung börn hvetur þau til að horfa, hlusta, vagga sér, velta sér, skríða, klifra, hoppa, hvíla sig, borða, vera með læti, grípa, kasta, setja hluti í munninn og vera „subbuleg" af og til. Umhverfið og efniviðurinn er skipulagt þannig að það ýti undir og efli börnin í að kanna umhverfi sitt. Deildunum er skipt niður í aðgreind svæði, samt þannig að það sé yfirsýn og börnin komist auðveldlega á milli þeirra til að kanna, skapa, leysa vandamál og rannsaka umhverfið.


Efniviður

Efniviðurinn henta aldri og þroska barnanna, höfða til allra skynfæranna, vera fjölbreyttur og endurspegla áhuga barnanna og margbreytileika mannlífsins á fordómalausan hátt. Efniviðurinn þarf að vera aðgengilegur börnunum, geymdur í glærum hirslum í þeirra hæð svo þau geti valið hann sjálf, nálgast hann sjálf, meðhöndlað hann, leikið með og kannað hann á eigin forsendum og eftir þeirra áhuga og þörfum. Þannig læra þau að taka sjálfstæðar ákvarðanir og sýna frumkvæði. Hafa þarf í huga að áhugi ungra barna breytist fljótt eftir því sem þau þroskast og því mikilvægt að vera vakandi fyrir áhuga þeirra, þörfum og þroska og skipta út efnivið eftir þörfum.

Meðhöndlun á efnivið

Í virku námsumhverfi er börnunum frjálst að fylgja eigin áhuga. Kennarar sjá börnunum fyrir viðeigandi efnivið sem ýtir undir þroska og áhuga þeirra og styður þau í að fylgja áhuga sínum. Bein reynsla af hlutum, fólki, hugmyndum og atburðum eru nauðsynleg skilyrði fyrir vitsmunalega uppbyggingu og þar af leiðandi þroska.

Það er því mikilvægt að börnin hafi greiðan aðgang að ólíkum efnivið sem þau geta kannað með munninum, augunum, eyrunum, nefinu, höndunum og fótunum og að þau geti notað hann á þann hátt sem þau kjósa helst.


Val

Þrátt fyrir ungan aldur eru börn á þessum aldri áhugasöm og það er þeirra innri hvöt sem knýr þau áfram til að kanna heiminn í kringum þau. Það þarf enginn að segja þeim að læra hlutina eða koma þeim í það. Þau hafa áhugann og þörf þeirra fyrir frumkvæði og sjálfstæði kemur þeim áfram.

Jafnvel yngstu börnin velja og taka einfaldar ákvarðanir á hverjum degi, allan daginn; ákvarðanir um hvað þau horfa á, hvort og hvaða leikfang þau vilja ná í, hvort þau ætla að halda sig við trésleifina eða ná í boltann, hvenær þau drekka úr pelanum eða stoppa bara og stara, hvort þau horfa á skuggann á veggnum við hliðina á vöggunni, kalla eftir athygli einhvers, kíkja á mjúku dýrin, hvenær þau hætta að leika og fara að sofa. Þegar þau fara frá því að verða ungabörn og verða aðeins eldri verður val þeirra flóknara; hvenær og hvernig þau taka af sér smekkinn, hvort þau klifra í kjöltuna á kennaranum eða setjast á stóra púðann með bók, hvar þau rúlla og sækja bolta, við hliðina á hvaða barni þau leika, hvernig þau fletja út leirinn, hvernig þau koma öllum dýrunum í veski, hvernig þau borða kexið, hvaða tuskudýr þau ætla að taka með sér í hvíldina, hvað þau nota til að þurrka upp það sem sullast og hvernig þau nálgast hluti sem þau ná ekki í.



Börnin gera manni ljóst á einn eða annan hátt hvað það er sem þau vilja, hvaða fólk, efnivið eða reynslu þau vilja helst, og þau finna leið til að leysa úr vandamálum sem þau lenda í. Með því að skapa umhverfi og aðstæður fyrir börnin til að hafa þetta val og geta tekið þessar ákvarðanir öðlast börnin færni, sjálfsstjórn, frumkvæði og sjálfstæði.

Orð og hugsanir barna

Manneskjan er félagsvera frá fæðingu. Ung börn sækja ákaft í samskipti við foreldra, aðra fjölskyldumeðlimi og þá sem annast þau og þau nota margar aðferðir til þess. Í fyrstu gráta þau –þegar þau vilja fá umönnun, öryggi eða svefn. Þegar fólk bregst við þeim – eiga þau í samskiptum – vegna ánægjunnar að eiga í samskiptum og skiptast á augnsambandi. Þau horfa á og brosa til foreldra sinna og þeirra sem annast þau. Þau gretta sig og yggla, þau hreyfa hendurnar, handleggina og fæturna af spenningi, gleði eða ánægju. Þau kíkja á uppáhalds fólkið, dýrin og leikföngin sín. Þau byrja að babbla og endurtaka sérhljóða og samhljóða sem þau heyra í samtölum. Svo fer babblið að taka á sig beygingar og hljóðfall tungumálsins þegar þau reyna að taka þátt í samtölum (gefa-þiggja) og skiptast á að tala.

Þegar börn byrja að tala er tungumálið einfalt og eitt orð stendur fyrir heila setningu. Ung börn heyra og skilja tungumál löngu áður en þau geta tjáð sig sjálf. Þangað til blanda þau saman hljóði, hreyfingum og orðum sem hefur merkingu fyrir þau. Með því að tjá sig við kennara, um það sem þau finna og uppgötva, og kennarinn endurtekur það sem þau segja og svarar þeim finna börnin að þau eru hluti af samfélagi þar sem þau tengjast öðru fólki, prófa hugmyndir sínar, og fá endurgjöf á athafnir sínar og tilfinningar. Þess vegna veita kennarar í virku námsumhverfi athöfnum, hljóðum, tjáningu, handahreyfingum og orðum barna sérstaka athygli. Þeir hlusta og horfa á börnin og gefa þeim nægan frið og tíma til að taka þátt í samtölum, þannig að þau fái næg tækifæri til að tjá sig. Þeir gera börnunum kleift að tjá sig á þeirra einstaka hátt. Þeir gera börnunum kleift að heyra tungumálið og taka þátt í samræðum. Börn vilja tjá sig, tengjast og öðlast skilning. Þeimur meiri virðing sem er borin fyrir þeim og þeirri löngun þeirra til að tjá sig þeimur betri verða þau í að tjá sig.

Hæfni barna til að tala, hlusta, lesa og skrifa á rætur sínar að rekja til reynslu þeirra af tungumálinu á yngri árum og þeim samskiptum sem þau áttu við þá sem önnuðust þau og gáfu sér tíma til að tala við þau og hlusta á þau. Það eru þeir sem skilja að börn „tala" á sinn einstaka hátt og verða að tala, jafnvel áður en þeir nota „réttu" orðin.

Stuðningur kennara

Til að læra og dafna þurfa börn öruggt umhverfi þar sem traust er ríkjandi. Þótt ung börn hafi sjálfsprottinn áhuga á að læra með öllum líkamanum og til að tjá það sem þau vita og komast að þá treysta þau á staðfestingu og hlýju kennarans til að geta það. Þegar þau fá stuðning og hvatningu til að gera það þá öðlast þau traust á sjálf sig sem hæfa einstaklinga og fá enn frekari áhuga á að kanna heiminn í kringum sig.

Kennarar fylgja börnunum eftir þar sem þau eru stödd og styðja við þau þar sem þau eru. Þannig efla þau börnin og koma þeim áfram á næsta þroskastig. Þegar barn kallar á athygli með gráti, hjali, babli, orðum eða athöfnum og fær jákvæða athygli frá þeim sem annast það fær barnið þá tilfinningu að það sé mikilvægt, það sé skilið og því sé sinnt. Þannig lærir barnið að treysta þeim sem annast það og að það fái jákvæð viðbrögð við athöfnum sínum, að það sé borin virðing fyrir því sem einstakling. Á sama tíma lærir barnið að treysta á sjálft sig og kalla fram viðbrögð frá hinum fullorðna. Þannig öðlast barnið sjálfstraust. Börn sem eiga í traustu sambandi virðast hafa þá vitneskju að þeir sem annist það styðji það í gegnum þær áskoranir sem það ætlar að takast á við og það sem því tekst að gera sjálft.

Traust samband barns og kennara ýtir undir sjálfstæði og frumkvæði barna auk þess að ýta undir almennan þroska þess. Virkt nám á sér stað í nánu félagslegu samhengi þar sem traust samband er lykillinn.


Félagsstofnun stúdenta
Afmælisbarn dagsins

Eyjólfur Sverrir 1 árs
Við höfum fengið 65.312
heimsóknir á vefinn okkar
Sólgarður - Eggertsgata 8 - Sími: 551-9240 - Póstfang: solgardur(hjá)fs.is