Reglur ungbarnaleikskóla stúdenta

  1. Skilyrði fyrir leikskóladvöl er að annað foreldri/forráðamaður eða báðir stundi nám við HÍ og ber þeim að skila námsvottorði þar sem fram koma skráðar einingar, við upphaf hverrar annar.
  2. Forsendur fyrir leikskólavist eru að foreldrar skili eðlilegri námsframvindu. Námsframvinda telst vera eðlileg ef foreldri lýkur a.m.k. 40 einingum á ári, eða 2/3 hlutum þess náms sem viðkomandi deild eða skor telur vera eins árs nám. Þar af þarf að ljúka a.m.k. 18 einingum á haustönn.
  3. Ef, af einhverjum ástæðum foreldri getur ekki skilað eðlilegri námsframvindu þarf að hafa samband við leikskólastjóra.
  4. Ef sérstakar aðstæður liggja fyrir er hægt að sækja um forgang að leikskólunum. Umsókn skal skilað til leikskólastjóra.
    Með umsókn skulu fylgja gögn sem styðja forgang þ.e. læknisvottorð, vottorð frá félagsráðgjafa og/eða greiningarstöð.
  5. Skilyrði fyrir leikskóladvöl er að foreldrar barnsins séu ekki í vanskilum við Félagsstofnun stúdenta.

    Farið skal með allar umsóknir og upplýsingar sem þeim fylgja sem trúnaðarmál og hvílir þagnarskylda á starfsmönnum Leikskóla stúdenta.


Námsmannaafsláttur í Reykjavík

1. Afslátt af námsgjaldi fá hjón og sambúðarfólk sem bæði uppfylla eftirtalin skilyrði:

2. Eru í háskólanámi og skráðir í að lágmarki 22 ECTS einingar á önn. Taka þarf fram á vottorði frá skóla að um fullt nám sé að ræða.

3. Eru í framhaldsskóla og skráðir í fullt nám að lágmarki 15 einingar á önn.

4. Skila skal skólavottorði fyrirfram fyrir hverja önn þar sem fram koma upplýsingar um einingafjölda og staðfesting á því að um fullt nám sé að ræða.

5. Nám sem tekið er gilt er það sama og nám sem lánshæft er hjá LÍN.

6. Eignist hjón eða sambúðarfólk, er notið hafa námsmannaafsláttar, barn, geta þau sótt um að fá námsmannaafslátt á meðan fæðingarorlof stendur, þó að hámarki í 9 mánuði þrátt fyrir að annað foreldrið uppfylli ekki framangreind skilyrði um lágmarksfjölda eininga á önn enda fylgi umsókn staðfesting frá fæðingarorlofssjóði um að það foreldri sem ekki uppfyllir skilyrði námsmannaafsláttar sé í fæðingarorlofi.

7. Afsláttur reiknast frá þeim degi sem skólavottorðum er skilað til leikskólastjóra leikskóla barnsins. Afsláttur er ekki veittur afturvirkt.


Afsláttur til einstæðra foreldra í Reykjavík

1. Afsláttur er veittur að fenginni umsókn foreldris. Umsókn skal endurnýjuð árlega, fyrir 15. ágúst og afhent leikskólastjóra í viðkomandi leikskóla.

2. Foreldri sem greiðir námsgjald sem einstætt foreldri þarf að vera skráður einstæður í þjóðskrá. Skóla- og frístundasvið getur óskað eftir frekari staðfestingu á því að foreldrar séu einstæðir, s.s. að þeir undirriti staðfestingu þess efnis.

3. Ef foreldrar skilja/slíta sambúð er afsláttur veittur frá þeim degi sem umsókn berst leikskólastjóra í leikskóla barnsins svo fremi að upplýsingar um breytta hjúskaparstöðu komi fram í þjóðskrá.

Foreldrar eru beðnir um að snúa sér til leikskólastjóra varðandi reglur annarra sveitarfélaga vegna niðurgreiðslu leikskólagjalda og afslátt til einstæðra foreldra og námsmanna