Starfsþróun og fræðsla starfsmanna leikskóla FS

15 Ágú 2017

Starfsþróun og fræðsla starfsmanna leikskóla FS


Í vor fengu leikskólar Félagsstofnunar stúdenta fræðslustjóra að láni til að gera hlutlausa úttekt á fræðsluþörf starfsmanna leikskólanna og útbúa fræðsluáætlun í samstarfi við þá. Fræðslusjóður Eflingar styrkti verkefnið. Fræðsluáætlunin skapar umgjörð fyrir markvissa og stefnumiðaða starfsþróun og fræðslu innan leikskólanna og stuðlar að því að þar starfi starfsfólk sem býr yfir nauðsynlegri hæfni og þekkingu.

Ágústa Gústafsdóttir hjá Vexti ráðgjöf kom að málinu sem fræðslustjórinn og vann með stjórnendum og starfsmönnum að fræðsluáætlun til vorsins 2019, sem byggir bæði á almennri og sértækri fræðslu. Fræðslan mun að mestu fara fram á starfsmannafundum, sem eru að lágmarki einu sinni í mánuði utan vinnutíma. Meðal námskeiða sem kennd verða á tímabilinu eru skyndihjálp, núvitund, streita- og streitustjórnun, HighScope, tákn með tali, málörvun og ungbarnaþroski. Alls verða 13 námskeið eða fræðslufundir innan tímabilsins.

Það eru því gífurlega spennandi tímar framundan og við hlökkum mikið til að efla okkur enn frekar í starfi. Við þökkum Eflingu og Vexti ráðgjöf fyrir frábært samstarf og stuðning.